Slökkvitæki

Slökkvitæki eru nauðsynlegur hluti af öryggistækjum heimilisins. Að geta slökkt eld í fæðingu getur komið í veg fyrir verulegt tjón og slys á fólki.

Flokkun elda

Eldar eru flokkaðir í brunaflokka eftir því hvað er að brenna.

Um er að ræða þrjá aðal flokka sem við köllum A, B og C.

Þeir taka yfir flest það sem brennur en að auki höfum við D og E fyrir sjaldgæfari og þá oft varasamari elda. Slökkviaðferðin fer síðan eftir tegund og umfangi brunans.

Engir tveir eldar eru eins, en þó eiga þeir margt sameiginlegt.

A-eldar eru oftast í föstum efnum, svo sem í timbri, pappír, fatnaði og fleiri efnum sem geta myndað glóð.

A-eldar brenna bæði við yfirborð efnisins og inni í því. Besta slökkviefnið við slíka elda er kælandi efni sem með áhrifum sínum nær inn í innstu lög efnisins og slekkur þar með glóðina.

B-eldar eru eldar í eldfimum vökvum s.s. alls konar olíum, málningu, feiti, sem og í föstu efni sem bráðnar. Slíkir eldar brenna frá yfirborði efnisins. Besta slökkviaðferðin við B-elda er kæfing.

Ekki nota vatn á B-elda.

C-eldar eru eldar í gasi og er allt gas flokkað undir þessa skilgreiningu.

Vatn

Fyrir hvað?

Vatnsslökkvitæki er fyrir elda í flokki A. Það notast á elda í föstu efni, timbur, vefnað (fatnað), pappír o.þ.h. Slekkur bæði loga og glóð.

Ekki fyrir:

Vatn má ekki nota á elda í olíu, feiti né í virkum rafmagnstækjum.

Lýsing:

Hylkið er úr ryðfríu stáli og er til ýmist 9 eða 10 lítra. Niður í gegnum tækið frá handfangi í gegnum loka gengur rör niður í botn tækisins sem vatnið fer um á leið úr tækinu. Á handfanginu er loftmælir sem segir til um þrýsting þann sem á tækinu er hverju sinni. Einnig er á handfanginu ventill til að blása lofti í tækið. Handfang tækisins er tvískipt og er það neðra burðarhandfang en með því að þrýsta því efra að því neðra er tækið gert virkt. Öryggispinni er í gegnum neðri hluta handfangsins til að ekki verði hleypt af því í ógáti.

Notkunartími: u.þ.b. 50 sek.

Kastlengd: u.þ.b. 10 metrar.

Notkun:

Fjarlægið öryggispinnann, beinið stútnum að rótum eldsins og kreistið saman handfangið. Beinið bununni að rótum eldsins og til beggja hliða. Þegar mestur eldurinn hefur verið slökktur, setjið þá fingur framan við stút tækisins og sprautið þannig úr tækinu. Við þetta myndast úði sem slekkur mun betur og sparar um leið vatnið.

Athugið!

Þegar slökkt er með vatni myndast alltaf mikið magn gufu. Hitinn af gufunni getur brennt illa, þótt hitinn af eldinum sé bærilegur. Við það að sprauta slökkviefni á eld fellur reykurinn niður, skyggni verður lítið og hiti eykst. Munið að vera alltaf lágt, þ.e. eins vel undir reyknum og hægt er.

Aldrei má nota vatnstæki við olíu- eða feitiselda. Olían mun fljóta ofan á vatninu og aðeins breiða eldinn enn frekar út.

ATH! Ef opnað hefur verið fyrir slökkvitækið, verður það að fara í hleðslu, hvort sem það hefur verið notað eða ekki.

Duft

Fyrir hvað?

Dufttæki er fyrir elda í A, B og C flokki. Slekkur illa glóð í föstum efnum og best að slökkva hana með vatni. Athugið að mikill sóðaskapur fylgir dufttækinu og því betra að nota vatn eða eldvarnarteppi ef um lítinn eld t.d. í skreytingu er að ræða, svo tjónið af völdum slökkvistarfsins verði ekki meira en tjón af völdum eldsins.

Ekki fyrir:

Slekkur illa glóð í föstum efnum og best að slökkva hana með vatni.

Lýsing:

Hylkið er úr járni og tekur ýmist 6 eða 12 kg. Efst á tækinu er burðarhandfang og lok það sem opnað er við áfyllingu. Ofan á lokinu er hnúður sem slegið er á þegar gera á tækið virkt. Öryggispinni er þó í gegnum hnúð þennan með innsiglisvír þannig að hægt er að sjá hvort átt hefur verið við tækið. Inni í tækinu er lítil koltvísýringsflaska áföst við lokið, frá henni liggur rör niður að botni tækisins þannig að þegar þrýstingurinn fer inn slökkvitækið, eykur hann rúmmál sitt 450 sinnum, rótar upp í duftinu og þrýstir því út í slönguna sem beint er að eldinum. Á enda slöngunnar er griploki þar sem hægt er að stjórna flæði duftsins með því að kreista eða slaka á honum að vild.

Notkunartími:

6 kg. 10-15 sek.

12 kg. 16-20 sek.

Kastlengd: 5-8 metrar

Notkun:

Takið öryggispinnann úr (innsiglisvírinn mun rofna), sláið þéttingsfast á hnúðinn, beinið slöngunni að rótum eldsins, kreistið griphandfangið og beinið duftinu hratt yfir allt hið brennandi svæði. Haldið áfram þar til engan eld er að sjá. Slakið þá á griphandfanginu og bíðið átekta. Endurtakið aðferðina ef eldur blossar upp á ný. ATHUGIÐ! Duft slekkur illa glóð, þannig að ef myndast hefur glóð í föstum efnum, bleytið þá með vatni.

Athugið!

Mikill kraftur er í tækinu í upphafi, sprautið því aldrei beint ofan í olíupoll né t.d. á pott á eldavél nema með ýtrustu varúð. Við að sprauta slökkviefni á eld, fellur reykurinn niður, skyggni verður lítið og hiti eykst. Munið að vera alltaf lágt, þ.e. eins vel undir reyknum og hægt er.

ATH ! Ef opnað hefur verið fyrir slökkvitækið, verður það að fara í hleðslu, hvort sem það hefur verið notað eða ekki.

Dufttæki

Léttvatn

Fyrir hvað?

Léttvatnsslökkvitæki eru fyrir A og B elda. Notist á elda í föstu efni, timbur, vefnað (fatnað) og pappír. Notist einnig á elda í olíu og feiti.

Ekki fyrir:

Notist ekki á elda í virkum rafmagnstækjum sé aðvörun þar að lútandi á tækinu.

Lýsing:

Léttvatnsslökkvitæki eru að mestu eins og venjuleg vatnstæki, þ.e. þau geta verið úr ryðfríu stáli líkt og loftþrýstu vatnstækin eða járntæki með plasthúð að innan líkt og önnur vatnstæki. Munurinn liggur einungis í stút tækisins sem er þannig gerður að hann tekur inn loft og blandar froðuvökvanum. Léttvatnstæki fyrir heimili eru yfirleitt 9 lítrar.

Notkunartími: 9 l u.þ.b. 40 sek.

Kastlengd: u.þ.b. 5-7 metrar

Notkun:

Fjarlægið öryggispinnann, beinið stútnum að rótum eldsins og kreistið saman handfangið. Beinið bununni að rótum eldsins og til beggja hliða. Við olíuelda er best að reyna að sprauta á einhvern kant eða vegg og flæðir þá létta vatnið betur yfir hinn brennandi flöt.

Athugið!

 • Léttvatn er tærandi efni og þarf því að þrífa járnhluti með hreinu vatni á eftir. Froðulögurinn eintómur virkar svipað og málningaruppleysir.
 • Við það að sprauta slökkviefni á eld, fellur reykurinn niður, skyggni verður lítið og hiti eykst.
 • Munið að vera alltaf lágt, þ.e. eins vel undir reyknum og hægt er.
 • Mikill munur er á stútum léttvatnsslökkvitækis og á venjulegs vatnsslökkvitækis

  Léttvatnstæki

  Koltvísýrings

  Fyrir hvað?

  CO2er fyrir elda í flokki B og C. Það notast á elda í virkum rafmagnstækjum, olíuelda og gas. Má nota á A-elda en slekkur illa glóð, slökkvið hana með vatni.

  Ekki fyrir:

  Notist ekki í litlum lokuðum rýmum þar sem CO2 ryður burtu súrefninu.

  Notist ekki á fólk, það gæti kalið.

  6 kg CO2 slökkvitæki

  Lýsing:

  Hylkið er úr stáli og er því nokkuð þungt miðað við stærð. Tækin eru til ýmist 4, 6 eða 7 kg. Handfang tækisins er tvískipt og er það neðra burðarhandfang en með því að þrýsta því efra að því neðra, er tækið gert virkt. Öryggispinni er í gegnum neðri hluta handfangsins til að ekki verði hleypt af því í ógáti. Athugið innsiglisvírinn sem rofnar við að taka pinnann úr. Tækin eru auðþekkt vegna hinnar stóru trektar. Haldið aðeins um handföng tækisins vegna hins mikla kulda sem úr tækinu kemur, ykkur gæti annars kalið.

  Notkunartími: u.þ.b. 20-24 sek.

  Kastlengd u.þ.b. 4 metrar

  Notkun:

  Fjarlægið öryggispinnann, haldið einungis um handföng tækisins, beinið trektinni að rótum eldsins og kreistið saman handfangið. Beinið bununni að rótum eldsins og sveipið til beggja hliða líkt og verið sé að mála með málningarrúllu þar til allur eldur hefur örugglega verið slökktur.

  Athugið!

  • Þegar slökkt er með CO2 minnkar súrefnismagnið í rýminu, þar sem koltvísýringurinn ryður því í burtu. Fyrstu einkenni sem benda til þess að um minnkað súrefni sé að ræða er hraðari öndun.
  • Beinið hvorki CO2 að fólki né reynið að slökkva eld í fólki með því, það gæti kalið því hitastig CO2 er -75c°.
  • Við það að sprauta slökkviefni á eld fellur reykurinn niður, skyggni verður lítið og hiti eykst.
  • Munið að vera alltaf lágt, þ.e. eins vel undir reyknum og hægt er.
  • CO2slökkvitæki slökkva glóðarelda illa, slökkvið glóð með vatni.
  • ATH ! Ef opnað hefur verið fyrir slökkvitækið, verður það að fara í hleðslu, hvort sem það hefur verið notað eða ekki.

  Koltvísýringstæki / Kolsýrutæki

  Sjónvarp

  Sjónvarpsslökkvitæki er mjög góður öryggisbúnaður sem auðvelt er að koma fyrir í raftækjum eins og sjónvarpi, þvottavélum og þurrkurum. Prófanir hafa sýnt að tækin slökkva eldinn á skömmum tíma og veita mikið öryggi. Það sem gerist er að um leið og eldur verður laus, t.d. í sjónvarpi, skynjar slökkvitækið það og losar frá sér efni sem ryður frá sér súrefninu og þá slokknar eldurinn. Það er því ljóst að þetta er ómissandi búnaður í sjónvarpið, þurrkarann og þvottavélina.

  Eldvarnarteppi

  Nokkrar stærðir af eldvarnarteppum eru á markaði hérlendis, eru þær hugsaðar til að geta þjónað sem flestum, heimilum, veitingastöðum og verkstæðum. Algengustu stærðirnar fyrir heimili eru 90 x 90 cm.

  Lýsing:

  Eldvarnarteppunum er venjulega pakkað í rauða poka, hvítar plastpakkningar eða rauða járnhólka. Neðan úr þessum pakkningum eru ávallt tveir spottar sem gera það auðvelt að ná teppinu úr pakkningunum. Teppin sjálf eru gerð úr trefjaefni úr gleri sem brenna mjög treglega. Eldvarnarteppin má nota aftur og aftur og ef svo fer að þau verði mjög sótug er hægt að skola úr þeim í þvottabala. Ekki má setja þau í þvottavél. Að þurrkun lokinni eru þau einfaldlega brotin saman og sett í pakkninguna aftur. Athugið að láta spottana tvo standa út úr pakkningunni.

  Notkun:

  Dragið teppið úr pakkningunni með því að toga í spottana, haldið síðan um þá og snúið hálfhring upp á teppið til að skýla höndunum. Haldið teppinu í framréttum höndum og leggið yfir hinn brennandi hlut. Leggið teppið yfir hinn brennandi flöt til að minnka súrefnismagn það sem liggur á milli hlutarins og teppisins.

  Athugið!

  Ef teppið nær að fara ofan í logandi olíu t.d. í potti á eldavél, mun loga upp í gegnum teppið. Takið það þá af, leggið á gólfið og slökkvið í því með fótunum og byrjið upp á nýtt. Geymið teppið ekki of nálægt gufugleypinum, þar sem fita getur þá sest á teppið og gert það ónothæft til slökkvistarfa. Setja skal teppið á áberandi stað svo það gleymist ekki í hita leiksins.

  Eldvarnateppi

  Hvernig slökkvitæki hentar?

  • Hvernig slökkvitæki hentar best inn á heimili?
  • Allir ættu að hafa eldvarnarteppi í eldhúsinu.
  • Gott er að hafa sjónvarpsslökkvitæki í sjónvarpinu.

  Slökkvitækið sem hentar best fyrir heimili er léttvatnstæki því það hentar á elda í föstu efni, timbur, vefnað (fatnað?) og pappír.  Notast einnig á elda í olíu og feiti þ.e. A+B elda. Þó svo duft henti á A+B+C elda slekkur það illa glóð og því fylgir mikill sóðaskapur sem getur valdið miklu tjóni því duftið fer um allt og inn í rafmagnstæki.  Því er 9 lítra léttvatnstæki hentugast fyrir heimilin.

  Hvar á slökkvitækið að vera?

  Slökkvitæki eiga að vera staðsett við flóttaleiðir. Þau eiga að vera á áberandi stað, aðgengileg og allir eiga að kunna á þau.

  Viðhald

  Ekki er nægjanlegt að vera með slökkvitæki og fylgjast ekkert með því. Það þarf að fara með það í skoðun einu sinni á ári til viðurkennds aðila. Svo er nauðsynlegt að kíkja á þrýstingsmæli og innsigli tækisins u.þ.b. einu sinni í mánuði. Það er gert til sjá hvort þrýstingur hafi nokkuð fallið eða innsigli rofnað..

  Slökkvi- og björgunarstörf

  Vertu með

  Eldvarnaeftirlit

  • Kynning (efni í smíðum)
  • Tilgangur (efni í smíðum)
  • Lög og reglugerðir
  • Skjalfesting öryggis (efni í smíðum)

  Eftirlitsáætlun

  Þjónusta

  Námskeið

  • Slökkvitæki (efni í smíðum)
  • Rýmingar (efni í smíðum)

  Fróðleikur

  Heimsóknir